heyrheyr
Ungverjanum barst eftirfarnadi póstur frá Jóa félaga (ath. ekki Jóa í Jóa og Félögum) og hljóðaði hann svona...
mætti segja að ungverjinn samþykki innihald bréfsins, kannski ekki alveg gróft orðalagið. En penninn er góður, það verður að viðurkennast, hvort sem fólk er samþykkt því sem skrifað er, eður ei.
Stíflum strax
Framþróun eða dauði
Svo ég komi mér beint að efninu: Ég vil stífla allt helvítis heila klabbið.
Ég skal stoltur þruma það yfir hverjum sem er og standa við það - Ég vil
stíflu. Ég vil stóra, mjólkurhvíta, alltumlykjandi, stórfenglega stíflu.
Ég vil drekkja grálitum, kagdrituðum klettasnösum í ólgandi, hvítfyssandi
vatni. Það er eitthvað til að dást að. Eitthvað til að stæra sig af -
annað en hin margmærða og óspjallaða íslenska náttúra.
Hvurn fjárann á að gera við alla þessa náttúru? Góna á hana til
eilífðarnóns? Yrkja henni kvæði? Míga til himins, henni til dýrðar? Mér er
til efs að aðrir en fáeinir blánefjaðir, lopavafðir túristar, sem villst
hafa fyrir misskilning þarna austur á mela, hafi yfirleitt séð þessa
óborganlegu klettarauf, sem allir elska nú meir en lífið sjálft. Þeim má
vera sama þó hún hverfi undir vatn - enda hvorteðer mestallt Þjóðverjar -
vanir vonbrigðum.
Ég á í munnsöfnuði mínum ýmis vel valin orð um þá sísífrandi múlasna sem
skýla sér bak næfurþunnum merkjum umhverfisverndar. Ég mun ekki nota þau
hér, en við þessi æxli mannlífsins vil ég segja: Haldið þið virkilega að
það augnablikshik á slóð tímans sem mannkynið fær hér til umráða hafi
einhver minnstu áhrif á náttúruna?
Hvaðan haldið þið að gljúfur og fjöll þessa heims komi? Úr konfektöskju
frá almættinu? Aldeilis ekki - jarðkringlan hefur frá upphafi engst sundur
og saman, þeytt eldi og eimyrju úr höfum, hvolft löndum í saltan sæ,
klofið fjöll og þrýst fram jöklum. Mér rennur í grun að hún muni halda því
áfram án þess að spyrja mig - hvað þá ykkur - leyfis.
Þið vessagrænu umhverfishortittir eruð ekkert nema skammsýnir,
eigingjarnir sníklar, blóðsugur á allt sem heyrir undir mannlega reisn,
tottandi lífsvilja og framkvæmdagleði úr hugum og sálum þeirra sem þó
vilja streitast við, hlaða vörður. Reisa minnismerki um að í einhvern tíma
hafi hér þrifist líf.
Ó já. Ég vil sko stífla! Ég vil geta staðið á íslensku stórvirki og litið
yfir lón svo djúpt, svo víðfermt, svo glæst að ég finni til þess að vera
maður. Finni til þráðar vissu um að geta beislað náttúruna, mótað. Skapað.
Fundið þó ekki væri nema vott tilgangs með þessari útþynntu maurkenndu
jarðvist okkar.
Já, kæru landsmenn, ég vil geta fróað mér yfir Kárahnjúkavirkjun - í besta
og fegursta skilningi þess orðs.
Þetta skrifaði Enter - enter@baggalutur.is