18.6.04

jæja hér...

sjaldan hefir ungverja svelgst jafn kröftuglega á, og núna í morgun, er hann opnaði fyrir upplýsingahraðbrautina. Í upphafi var náttúrulega ljósið og allt það, en ungverjinn byrjaði að venju á mogganum. Las þar um dauða amríska hermenn í Írak, enn fleiri dauða íraska venjulega menn í írak, og hinn dularfulla draug, sem Rumsfeld & co. hefur haldið í 7 mánuði á laun í rammgerðu fangelsi. Ungverja finnst nú magnað að þessir menn komist upp með þetta. Það kemur svo pottþétt í ljós að Osama bin Laden er mættur. Spurning samt hvort þeir gætu haldið því leyndu...

það var hins vegar ekk þetta sem olli svelgingu ungverja.
Nú er mönnum almennt kunnugt um þann ósið að kalla ungverja Ester. Ungverji er ekkert sérstaklega hrifinn af þessu, en lætur þetta, eins og svo margt yfir sig ganga, og tekur með stóískri ró... oftast.
Nú hefur þetta smitast til hinna ríku og frægu útí heimi. Ester Barta var lengi vel sú eina sem hélt merkinu uppi, en nú er komin önnur. Madonna sjálf, besta vinkona Britney, vill núorðið ólm láta kalla sig Ester. Ungverji skilur þetta svosem alveg, en ætlar sér þó að ræða málið við Madonnu, og gera henni grein fyrir að hún geti ekki bara allt í einu ákveðið að hún verði kölluð Ester í framtíðinni. Um slíkar nafngiftir gilda ákveðnar hefðir, eins og t.d. er rík hefð fyrir því að fyrir nafngiftinni standi snælduvitlaus arabi, sem drepur snáka með kæfingu í frístundum. Það þýðir ekkert bara að stökkva upp í heimspressunni og krefjast þess að vera kölluð Ester, þvert á allar hefðir og venjur.

Annars hefur Íslands dvöl ungverja verið viðburðasnauð fram að þessu. Mikið hefur verið slappað af og sofið. Ekki vanþörf á, enda mikið verið lesið undanfarið og tekið af prófum, og kominn tími á smá R&R.

Ekki má gleyma að óska þjóðinni til hamingju með gærdaginn. Hins vegar fær mogginn ekkert prik fyrir að gleyma að segja landsmönnum að hann kæmi ekki út í dag. Ekki sniðugt. Foreldrar ungverja sátu við eldhúsborðið í morgun, agndofa og orðlaus yfir framhleypni og fárskap þeim er ritstjórn Morgunblaðsins sýnir æ ofan í æ gagnvart grandalausum áskrifendum. Fólk sat bara uppi með Baugstíðindi, full af saurburði á forsætisráðherrann. Foreldrar ungverja, sem og flestir aðrir landsmenn, kæra sig bara ekkert um saurburð yfir morgunverðar teinu. Best þykir að láta það bíða fram undir kaffi.

góðar stundir.

|