14.4.04

Ungverji hætt kominn!

Já, það var þannig mál með vexti að yfir vídjómynd á föstudaginn langa ákváðu Ungverji og Stefán ofurgarpur að drífa sig til búdapest 7 tímum síðar. Ungverji mætti galvaskur á lestarstöðina morguninn eftir, og hitti þar fyrir garpinn. Að lokinni annars frekar pirrandi lestarferð, hvar tók 1,5 klukkutíma að fá ommelettu, var komið til búdapest. Farið var sem leið lá yfir Danuber-fljót og haldið í fiskabúr þeirra búd-verja. Það var nú bara ansi gaman að fara þangað. Eftir að hafa komist frá safninu nokkuð heilir (fuglar sáu sér fært að láta af skitu á ferðalangana) var haldið á PizzaHut. Það var að sjálfsögðu yndislegt! Eftir þennan annars ágæta málsverð var haldið upp á Hösök tére, eða hetju-torgið, og farið á sýningu í safni þar við hliðina. Sýningin var frekar mögnuð, um helförina. Þetta er kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þessa frétt sem tekin er af mbl.is:

Ungversk stjórnvöld sögð hafa komið í vegfyrir morðárás á forseta Ísraels
Ungversk stjórnvöld komu í veg fyrir morðárás á Moshe Katsave, forseta Ísraels, sem nú er staddur í þriggja daga opinberri heimsókn í Ungverjalandi. Þetta kom fram í útvarpsfréttum í landinu og var vitnað í leyniþjónustu í Ungverjalandi. Þrír menn af arabískum uppruna hafa verið handteknir í tengslum við áætlun um sprengjutilræði gegn forsetanum.

Ungversk lögregla komst á snoðir um að til stæði að gera hryðjuverkaárás meðan hann væri í heimsókn í Ungverjalandi, að því er Lajos Nemeth, talsmaður lögreglu greindi frá. Hann vildi hvorki játa því né neita, að forsetinn hefði verið skotmark í árásunum sem til stóð að gera.

„Lögreglan í Búdapest gerði ráðstafanir vegna gruns um að til stæði að gera hryðjuverkaárás,“ sagði Nemeth. Hann sagði að húsleitir, yfirheyrslur og varðhaldsúrskurðir vegna málsins, væru í undirbúningi.

Málið fékkst ekki staðfest með opinberum hætti, en lögregla sagði að hún myndi halda blaðamannafund vegna þess, síðar í dag.

Katsav, er meðlimur í Likud-flokki Ariel Sharons, forsætisráðherra Ísraels. Hann er staddur í þriggja daga opinberri heimsókn í Ungverjalandi og átti meðal annars að opna nýtt safn til minningar um helförina, í Búdapest, höfuðborg Ungverjalands.


Og þarna var Ungverji einungis á laugardaginn. Ungverji hefur aldrei, svo hann viti, verið jafn nálægt því að springa í loftupp!

|