19.3.04

daginn

Já, nú er komið sumar. Fyrir rúmri viku var hér í Debrecen tíu sentímetra jafnfallinn snjór, frost og almennt volæði. Nú, á föstudegi, er 25 stiga hiti í forsælu, og notaleg gola. Hvílíkt yndi sem lífið er.

Annars er ekki mikið að frétta af ungverja. Helst telst það þó til tíðinda að Menntaskólinn er dottinn úr leik í Bettu Getur, eða hvað það nú heitir. Það tók ungverja sárt að taka við þessum skilaboðum sem vinkona Helga skilaði með rafrænum hætti í gærkveldi. Hins vegar gleður það ungverja mikið að vita af félaga Snæbirni, sem vafalaust er feginn lausninni úr prísund þeirri sem drengurinn hefir setið í undanfarin ár. Þetta var fyrsta keppnin sem Menntaskólinn tapar í 11 ár. 11 ÁR! Ekki slæmt það. Og nokkuð ljóst er að önnur eins sigurhrina verður seint leikin eftir.

Ungverji fer í kvöld í matarboð til Ginzberg fjölskyldunnar. Félagi ungverja, Lev Ginzberg, nýtur um þessar stundir samvista við foreldra sína og bróður, hver lærir hér einnig. Mama Ginzberg hefir lofað að veita vel af mat og drykk, og mun ungverji ekki annað en seríósdisk morgunsins láta fara innfyrir varir sínar fram að boðinu góða.

Svo er það mál manna að Hanna Kristín Lind ætli að lita hár sitt ljóst. Ungverji stenst ekki mátið og mótmælir hér með. Þó lýsir hann yfir stuðningi við hvaða þá ákvörðun sem ungfrúin tekur. Ætli stúlkan láti sjá sig með nýjan hárlit á pókerkvöldi því er Helgi heldur um helgina. Ungverji mun eigi láta nappa sig í sömu vitleysu og síðast, og mun mæta vopnaður 30 hundraðköllum, sem hann mun fara með heim þegar allt er yfirstaðið.

Annars liggur fátt annað fyrir en að fara heim, lesa svolitla bíókemíu og lífeðlisfræði.

Skemmtileg staðreynd: Skjaldkyrtilshormón er magnað. Það getur aukið BMR um allt að eitt hundrað prósent, styrk hjartans um 30-40 prósent, valdið geypilegu þyngdartapi (allt að fimmtíu kg) á stuttum tíma. Nú velta lesendur sennilega fyrir sér, hvers vegna fólk étur ekki bara tyroxín í morgunmat í staðinn fyrir séríósið. Jú, ástæðan er sú að taki fólk þetta efni grennist það, styrkist (upp að ákveðnu marki þó; eftir að því er náð veikist það og deyr) en það sem einnig gerist er öllu leiðinlegra. Niðurgangur, taugaveiklun, móðursýki, svefnleysi, hjartabilun (í stórum skömtum af Tyroxini) og á endandum dauði.
Ungverji er að hugsa um að fara bara í gimmið. Gott geim.

góðar stundir, og passið ykkur á Skjaldkyrtilshormóninu!

|