21.3.03

BULL

Já, það má með sanni segja að Ungverjinn hafi lent í því mesta bulli, sem sögur fara af. Það byrjaði með því að Ungverja, ásamt samverjum, var boðið í kokteil og pinnamat á þriðjudaginn.

Ungverjinn vaknaði ferskur og hress á þriðjudaginn. Hlakkaði til að fara til Budapest og skoða borgina, í góðum félagsskap, drekka ótæpilega af víni í boði íslenskra skattborgara, borða fínan kvöldmat og komast svo heim í háttinn, og fara í krufningu á miðvikudagsmorgninum. Og viti menn. Þannig fór það nú aldeilis ekki.
Ungverjinn steig úr rekkju upp úr klukkan 10. Lestin átti að fara klukkan 11:48, svo nægur var tíminn. Farið var í sturtu, jakkafötin þrædd upp á útlimina, bindið hnýtt um hálsinn, skórnir pússaðir, og Ungverjinn reddí að ganga út úr húsi klukkan 11:05. Fínu skórnir eru þess eðlis að ekki er hægt að labba eins greitt á þeim og útslitnum strigaskóm Ungverjans. Var kominn að trammastöðinni svona 11:15. Enn nægur tími. Eftir langa bið kom tramminn. Og það var ekkert með það, en trammstjórafíflið fór ekki hraðar en snigill. Undir venjulegum kringumstæðum, væri þetta allt í lagi, en eftir að hafa staðið 23 mínútur í trammanum kom hann á lestarstöðina. [tekur venjulega upp undir 15 mínútur] Ungverjinn kom, og klukkan stóð í 11:45. Eins gott að samverjarnir hafi keypt miða fyrir ungverjann, ellegar yrði lítið úr þessari ferð. En það var lán í óláni að það var engin lest til Budapest klukkan 11:48. Næsta lest klukkan 12:57. Ferðalangar [auk Ungverja, Bjartur, Sólrún, Tóta, Ingvar, Daði, Björg, Hanna og Stefán] tóku því á það bragð að hringja í Zsoltán, einkabílstjóra með meiru. En nei. NNNNEEEEEIIIIIIII. 70000 Ft vildi melurinn fá fyrir að keyra okkur til Budapest. 70000. Það er rugl. Fólkið ákvað því að láta slag standa og taka 12:57 lestina. Eftir ekki svo eftirminnilega lestarferð, að undanskildum æfingum Bjargar á klósettum lestarinnar, og annars ágætri ommelettu, var komið til Nyugati [lestarstöðina okkar í Buda]. Lestarstjórinn sá sér samt ekki fært annað en að hægja um of á lestinni, allt of oft, svo við vorum mætt til Buda upp úr klukkan 15:35. Eftir að hafa samið við leigubílstjóra borgarinnar um keyrslu á hótel Danubius Gellert. Það tókst, og var ekki laust við að samverjar mættu samtímis Palla Ped. Við innganginn í Salinn stóð enginn annar en Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, auk sendiherra og viðhengis [lesist Dorrit]. Eftir að inn var komið, var ljóst að það yrði alveg nóg að éta og drekka, og var ekki slegið við slöku í þeirri deildinni. Fátt markvert gerðist í þessari veislu, fyrir utan það að Óli kom bara vel út, talaði heillengi við okkur stúdentana, minntist á okkur í ræðu og titlaði okkur sendiherra framtíarinnar í samstarfi Íslands og Ungverjalands. Gott mál það.
Það kom svo upp á, eins og vill verða, að ein stúlkan þurfti að verða léttari. Fór í þeim erindagjörðum beinustuleið á salernið. Það var ekki laust við að fólk tæki eftir því að Dorrit hlypi í humátt á eftir. Síðar kom í ljós, að Dorrit er sjúk í Sólrúnu. Komment eins og "You er estatic", og "I lover your shoes" [sem hún btw. átti ekki] og "Your waist is exactly like Nicole Kidman´s" féllu Sólrúnu í skaut úr munni Dorrittar. Gaman að þessu...
Jæja, eftir að hafa látið panta borð á fínum stað, borðað fyrir óhæfilega mikinn péníng, ómennskt góða máltíð var haldið á lestarstöðina til að ná 22:00 lestinni. BUT WHAT DO YOU KNOW??? Engin lest. Síðasta lest til Debó: 20:05 . Síðasta lest í áttina að Debó fór til bæjarins sem fékk viðurnefnið SajtosPulykamell, sökum óframberanlegs nafns.
Eftir þriggja klukkutíma lestarferð var lestin stöðvuð, að því er virtist á miðju viðgerðarverkstæði fyrir lestar. Okkur skipað út og allt í vitleysu. Eftir að hafa komist á sporið [hversu ömurlegur var þessi brandari???] fundu ferðalangar lestarstöðina, sem er einmitt eitt af 7 húsum í bænum. Lestarstöðin er eitt, hús viðgerðarmannanna er annað [stærst], hús Lestarstjóranna tveggja eru 2 og hin þrjú eru verslunarmiðstöð bæjarins. Þetta er e-r mesta vitleysa sem Ungverjinn hefur lent í, og heyrðist, oftar en einusinni, "þetta er mesta BULLLLLLLLLL, sem ég hef lent í!".
Haft hafði verið samband við Ofer Finkelstein, og hann dobblaður til að sækja fólkið, við annann mann.

Langur dagur var að nóttu löngu kominn, og heimkoma var um 3:30. Ekki var farið í krufningu samdægurs, skiljanlega.

jæja, spurning hvort ungverjinn ætti bara yfirleitt að fara út úr húsi, hvað þá á milli bæjarhluta... sbr. ferðasögu, bloggaða 7. janúar.

góðar stundir.

|