23.4.03

Einkavæðing

Fólki hefur orðið tíðrætt um einkavæðingu undanfarið, sérstaklega í kjölfar gagnrýni (ó)samfylktra í garð Sjálfstæðisflokksins. Eftirfarandi eru skoðanir Ungverjans á þessu umdeilda ferli.

Einkavæðing ríkisstofnanna hefur, á þessum tímapunkti náð til eftirfarandi greina atvinnulífsins: Fiskveiða, Sementframleiðslu, Síldarmjölsframleiðslu, Banka, vegaframkvæmda, apóteka, hjúkrunarheimila o.s.frv.

Nú á undanförnum vikum og mánuðum hafa augu stjórnmálamanna í auknum mæli beinst að einkavæðingu heilbrigðis og menntakerfis landsins.
Byrjum á menntakerfinu:
Nú þegar eru einkareknir skólar til staðar í landinu; HR, Bifröst, Verslunarskólinn og nú bætist nýr skóli í hópinn: Framhaldsskóli sem staðsettur verður í Hafnarfirði [því annars ágæta byggðarlagi] sem mun bjóða upp á nám til stúdentsprófs á tveimur árum. Nemendur útskrifast því 18 ára, eins og í mörgum hinna víðfrægu nágranna- og samanburðarlanda. Þar, eins og í öðrum einkareknum skólum, eru skólagjöld. Það hins vegar virðist ekki vera fólki til trafala að sækja um, þrátt fyrir að gjöldin séu, í sumum tilfellum, frekar há. Sú röksemd sem andstæðingar einkavæðingar í menntakerfinu halda hvað mest á lofti; að með þessari ráðstöfun hafi fólkið í landinu mismunandi aðgengi að góðri menntun, og sé því mismunað eftir efnahagslegum aðstæðum hverju sinni, á fullkomlega rétt á sér. Það verður hins vegar að minna á að fólk í landinu hefur mismunandi laun, og þar af leiðandi mismunandi mikla fjármuni til að setja í menntun barna sinna. Það er rangt að mismuna fólki. Hins vegar má ekki missa sjónar á því fólki sem hefur efni á að senda börn sín í dýran skóla. Það er rangt að banna einkavæðingu hluta skólakerfisins, einmitt vegna þess fólks sem hefur peninga milli handanna til þess að borga dýran skóla. Það má heldur ekki missa sjónar af HÍ, sem er "ríkisrekin" skóli. Þar geta íslendingar, nánast óháð efnahagslegum bakgrunni stundað nám í mörgum greinum, og öllum þeim nauðsynlegustu sem þarf til að reka siðmenntað þjóðfélag. Ástæðan fyrir því að sagt er nánast, er sú að kostnaður við að lifa, ganga í skóla og kaupa bækur er orðinn svo mikill að sumt fólk einfaldlega hefur ekki efni á námi. Þrátt fyrir að námið sem slíkt sé nánast ókeypis. Því væri nær hjá andstæðingum einkavæðingar í menntakerfinu að einbeita sér að lækkun skatta á bækur, og afnámi innflutningstolla á skólabækur, sem eru beinir skattar á námsmenn.

Heilbrigðiskerfið:
Mjög umdeilt málefni, svo ekki sé meira sagt. Domus Medica er það næsta sem kemst því að vera einkarekið sjúkrahús á Íslandi. Margar litlar einkareknar stofur eru hér og hvar út um allan bæ. Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu er því langt í frá ný af nálinni. Með einkavæðingu næst hagkvæmari rekstur, aukin stjórn fjármagns, betri og skilvirkari umönnun sjúklinga og svo mætti lengi telja. Einnig verður endurnýjun tækjabúnaðar örari, en hún er nú á ríkisspítölunum til háborinnar skammar. Sem nærtækt dæmi mætti nefna röntgendeildir sjúkrahúsanna. Þar, eins og í öðrum greinum sem reiða sig á tölvur og tölvubúnað, er ör endurnýjun frumskilyrði fyrir árangursríkum og skilvirkum rannsóknum. Þar kemur einnig inn í endurmenntun starfsfólks, sem spítalinn er eftir því sem ungverji veit best duglegur við. Spurningar vakna um endurmenntun starfsfólks. Hví að endurmennta starfsfólk, sem vinnur við tæki sem eru 10 ára gömul? Er það ekki hámark kaldhæðninnar? Starfsfólk er sent í dýrar ferðir til útlanda til að læra nýjasta nýtt í sinni grein, kemur svo heim og hjakkar í gamla farinu, einungis vegna þess að meirihluti þess sem fólk lærir, krefst þess að almennileg tæki séu til staðar. Nú eru til að mynda öll gögn, í almennilega reknum spítölum, orðin stafræn. Röntgenmyndir ekki lengur framkallaðar, heldur bara sendar beint í tölvuna, án þess að vera með e-t vesen.
Með einkavæðingu er hægt að koma í veg fyrir að tæki verði úrelt, með örri endurnýjun. Núverandi heilbrigðisráðherra finnst það allavega ekki fært að kaupa ný tæki. Þrátt fyrir að rannsóknir yrðu hraðari, skilvirkari, nákvæmari og þess vegna árangursríkari.
Þá komum við aftur að fjárhagshliðinni. Og aftur verður beitt sömu rökum. Það er rangt að mismuna fólki, hvernig sem á það er litið. Ef fólk hefur peninga milli handanna sem það vill nota í að komast strax til læknis, þurfa ekki að í langri biðröð, þá ekki að neita þeim um það. Einnig þeir sem eiga einkarekið sjúkrahús. Það má ekki neita þeim um starfsvettvang að eigin skapi, neita þeim um það einstaklingsframtak sem þeir vilja framkvæma. Það er einfaldlega rangt. Þau rök, sem andstæðingar einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu hafa fyrir sínum málflutningi, standast einfaldlega ekki. Háskólasjúkrahús verður aldrei einkarekið, og því verður alltaf fyrstaflokks læknisþjónusta fyrir hendi á ríkisreknum sjúkrahúsum. Sama hvað tautar og raular. Og nú, með nýjum samningi sem læknar hafa gert við ríkið, sem bannar þeim að starfa annarsstaðar en hjá ríkinu, er ljóst að þeir prófessorar við Læknadeild HÍ sem kenna á spítölunum, munu ekki flytjast yfir á einkarekin sjúkrahús. Þar af leiðandi verður þekkingin og reynslan til staðar.
Auðvitað er ekki hægt að segja til um það, hverjir muni vilja starfa á einkareknu sjúkrahúsi, frekar en á ríkisspítala. Eitt er hins vegar víst, að það má ekki neita fólki um eintakslingsframtak, né læknisþjónustu, svo á einhvern hátt mun þetta allt leysast farsællega.
Það er hins vegar alveg ljós að undirritaður læknanemi kýs frekar einkarekið sjúkrahús, með fyrstaflokks tækjum og aðstöðu, yfir fámannað ríkissjúkrahús. En að sjálfsögðu getur það allt saman breyst, þegar til lengri tíma er litið.

X-D, D fyrir Dásamlegt!!!

|