20.8.04

farið að styttast...

já, það er farið að styttast í að ungverji hverfi til sín heima í landi Magyara. Sumarið er búið að lýða ansi hratt, eiginlega hraðar en góðu hófi gegnir ef á að segja alveg eins og er. Það er ekki hægt að segja að sumar ungverja hafi verið viðburðaríkt, en það sem stendur upp úr er verslunarmannahelgin, djömmin með félögunum, og grillið í Hlíðinni með ungverjum. Já, þetta er líka það eina sem ungverji hefur gert í allt sumar, að frátöldu því að skeina og neðanþvo fólk á Sóltúni. Svo fór ungverji í veiðiskap í Haffjarðará í boði Actavis sem var náttúrulega helber snilld, þrátt fyrir að hafa rifið út úr eina fiskinum sem beit í Eldrössu. Planlagt er annað fiskerí í Norðurá um aðra helgi, svona rétt áður en ungverjinn heldur "heim". Svo er familían væntanleg á morgun í grill til að fagna ammali ungverja sem verður víst 23 ára. Þetta er rosalegt!!!

Svo skutlaði ungverji Atlanum og Tumanum suður í Keflavík, hvaðan þeir lögðu upp í reisu til ítalíu á fimmtudagsmorgun. Þeir ætla að krúsa um stígvélið og nærliggjandi lönd í 2 vikur. Svo var Hanna að leggja upp í langferð um daginn, til Nígeríu. NÍGERÍU!!! Hún er að fara að heimsækja skólasystur okkar sem býr þarna. Hanna mín, passaðu þig bara á brjáluðu fólki með AK47 rifflana eins og í sjónvarpinu. Þetta lið er stórhættulegt! Jamm, svo hafa fólksflutningar hafist til ungó, en Gunna fór í dag, og undirritaður heldur að Þengill og Björg hafi skellt sér í gær, svo íslendingarnir geta farið að láta finna fyrir sér aftur í Debó.

Menningarnótt á morgun, laugardag. Ungverji á víst ammali á sunnudaginn, og tekur á móti gestum og gangandi við Sólon kaffihús upp úr miðnætti, aðfaranótt sunnudags. Reykvíkingar og aðrir nærsveitamenn eru boðnir velkomnir í miðborgina að samfagna ungverja á þessum miklu tímamótum. Ungverji þakkar hugulsemina, en það er ekki á hverjum degi sem ungverji fær heila flugeldasýningu í afmælisgjöf frá Reykjavík. Sérstaklega hugulsamt þar sem ungverji býr ekki einu sinni í Reykjavík.

|