28.1.03

Kiddi í Hallanum

"Já góðan daginn herra Forseti. Og hvað má bjóða þér í dag? Peppó kannski?"
Það var ósjaldan að Ungverjinn fékk að heyra þessi orð á námsferlinum í MR. Kiddi í Hallanum var ómissandi. Alltaf, hvað sem á bjátaði, mætti manni fyrir aftan borðið brosandi góðlátlegt andlit Kidda sem vildi allt fyrir mann gera. Þannig var hann bara. Það var allt sjálfsagt.
Ungverjann rekur minni til þess, e-n daginn er hann átti leið í Hallann að Kiddi var ekki á staðnum. Ungverjinn ályktaði strax að kallinn væri í útréttingum. Borga reikninga, eða stússast eitthvað. Konan hans Kidda, (sem lengi vel hélt nafni sínu leyndu fyrir Ungverjanum þó ekki af ásetningi, heldur var um að kenna ragni Ungverjans við að inna konuna eftir nafni sínu) hún Magga varð fyrir svörum. Það var Magga sem sagði Ungverjanum, er hann spurði um Kidda, að hann hefði verið lagður inn um nóttina. Ungverjinn kom af fjöllum, þó vitandi að Kiddi ætti við e-r veikindi að stríða, lungnabólgu og eitthvað slíkt. Kiddi hafði þá verið greindur með krabba fyrir nokkrum mánuðum. Ungverjinn spurði, eins og bjáni, hvort hann væri þá kominn heim. Nei. Svo var ekki. Hann væri hins vegar allur að hressast, og hefði ekki viljað hafa það að Hallinn væri lokaður í löngu frímínútunum. Hvað ættu krakkarnir að gera? Magga var hinn helmingurinn af Kidda. Oftar en ekki greindi þau á um hin ýmsu mál, en það var alltaf leist með góðlátlegu brosi og vinahótum. Meira þurfti ekki til. Þau stóðu alltaf saman. Kiddi og Magga voru sem órjúfanleg heild. Þau voru partur af MR, nemendum skólans. Þau voru partur af mér.
Ungverjinn vonar að Magga haldi áfram með Hallann, og kæmi Ungverjanum ekki á óvart að nemendur MR taki þar undir, heils hugar. Ungverjinn vottar Möggu og fjölskyldu innilega samúð, á þessum erfiðu tímum.
Horfinn er sjónum góður vinur,
Hvíl þú í friði Kiddi minn

Eggert Eyjólfsson (Forsetinn)

|