12.1.04

þroskaheftir

Um fyrirsögn á textavarpi rúv, og almennt sinnuleysi fjölmiðla gagnvart fötluðum íþróttamönnum.

Það má með nokkurri vissu segja að fatlaðir íþróttamenn séu annars flokks íþróttamenn, samkvæmt fjölmiðlum. Þetta er kannski sterkt til orða tekið, en tími er til kominn að e-r segi eitthvað. Hversu oft hefur Jón Arnar valdið vonbrigðum með því að hætta í keppni á HM, eða Ólympíuleikunum eða bara e-u skítamóti útí rassgati? Hversu oft hefur Vala Flosa fellt byrjunarhæð sína í prik-hoppi í beinni? Hvers vegna var Sigurbjörn Bárðarson íþróttamaður ársins um árið? Hann situr á rassgatinu og heldur á bjór, og er þess vegna verðugur fulltrúi íslenskrar íþróttamenningar!

Svo berast fréttir, endrum og sinnum, af íþróttafólki sem er að gera góða hluti á alþjóðlegum vettvangi, svo sem Óli Stef, Örn Arnar, Gunnar Örn, Kristín Rós o.s.frv. Á þessum lista eru 2 nöfn, sem ekki eru á allra vörum. Gunnar Örn Ólafsson, og Kristín Rós Hákonardóttir. Þetta er sundfólk, sem er fatlað. Þetta fólk keppir við annað fólk, líkt og Óli og Örn, sem er í sama styrkleikaflokki og það sjálft og er bara að gera virkilega góða hluti. Kristín Rós er margfaldur heimsmeistari, heimsmethafi, ólympíusigurvegari, evrópumeistari og ég veit ekki hvað og hvað og hvað. Gunnar Örn veit ungverji ekki jafn mikið um, líkt og flestir, en stráksi varð heimsmeistari í sundi um helgina. Ekki slæmt það.
Tilefni þessara skrifa er fyrirsögn sem ungverji sá sér til nokkurrar furðu á textavarpi rúv. Hún var svohljóðandi: Þroskaheftir: Gunnar Örn fékk gull! Ungverja finnst þetta nú lágkúrulegt. Hvernig hefði verið að hafa fyrirsögnina svona: "HM í Hong Kong: Gunnar fékk full"; svo hefði verið hægt að útskýra nánar hvað um var að ræða innan í fréttinni.

Þetta er að vísu ekki eingöngu vandamál íslenskra fjölmiðla, heldur heimsins alls. Ungverji veit að fólk mun segja: "Þetta fatlaða fólk er vissulega gott, en það er ekki hægt að bera það saman við íþróttastjörnur sem hefur alla útlimi, eða er ekki skert að öðru leyti". Ungverji segir, þess þó heldur að útvarpa árangri þeirra sem minna mega sín.

Að lokum leggur ungverji til að fatlaðir íþróttamenn verði settir að jöfnu við ófatlaða í vali, viðurkenningum og styrkveitingum ÍSÍ. Hvernig væri tildæmis að hafa þetta árangurstengt???

|