JNK og BUÉK
Ofanritaðar skammstafanir þýða á óhrognamáli: Góðan dag og Gleðilegt nýtt ár.
Hvað gerðist á þessu ári sem var að líða? Það gerðist nú býsna margt. Færra sem ungverji man eftir, og ekkert sem tekur því að skrifa það í upptalingu á merkilegum hlutum sem gerðust á liðnu ári. Og þó...
Í janúar bar það hæst að Ungverji festist í flugvél og svo á flugvelli við það að gera heiðarlega tilraun til að komast til námsstaðar sín (ath. fallbeygingu á þessu fornafni: nf. sig, þf. sér, þgf. sín, ef. ekki til) Debrecen í Ungverjalandi. Tók ferðin allmiklufleiri klukkutíma en gert var ráð fyrir. Svo þegar komið var á Ferhegy-flugvöll var engin taska og allt í fokki.
Í febrúar, mars, apríl og maí gerðist fátt merkilegt. Það sem merkilegt getur talist var að Ungverji varð íslendingur á ný 31. maí, en þá hélt hann ásamt Daða heim á leið eftir strembna próftörn.
Í Júní hóf ungverji störf á hjúkrunarheimilinu Sóltúni, hvar hann kynntist ömmum og langaömmum fólks, annars en hans sjálfs, öllu nánar en fólk almennt kærir sig um. nuff said. Í júní héldu vinirnir á Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka (minnir ungverja) (ekki er vafa um staðsetningu hátíðarinnar, heldur tímasetningu), hvar Guðlaugur nokkur var hætt kominn í fjöruborði bæjarins og tapaði lopapeysu, sem greinilega bar ekki jafnmikið tilfinningalegt gildi og hatturinn sem ungverji og Steini földu undir Steini á Steinaströnd í landi Spánverja; það var semsagt ekkert grátið við tap lopapeysunnar.
Í Júlí var skeint, baðað, búið um legusár, skeint og aftur skeint. Tilhlökkun til verslunarmannahelgar var mikil. Ungverja rekur minni í allsérstaka landmannalaugaferð... gaurarnir frá Basel (borið fram Ba-al) voru í góðu stuði.
Í Ágúst var ekki farið á Þjóðhátíð, eins og lofað hafði verið, heldur allt gert sem gert hafði verið í júlí, fyrir utan að hlakka til verslunarmannahelgarinnar. Ungverji, ásamt Guðnýju (snillingur sem vann með ungverja í skeiningum á Sóltúni) röðuðu vitlausum pöntunum af bleyjum inni á líni alla helgina. Í hjáverkum var svo litið inn á klósett og... you know the rest... 10. ágúst var svo hætt að vinna. Tsjillað fram að brottför til Debó. Haldið kveðjupartý (ath. númer 4) sem var slappt. Spurning um að innrétta bílskúrinn sem eldhús og halda partí þar. Hafa 3 ísskápa, nokkra vaska og 2 klósett úti á miðju gólfi hvar fólk getur létt á sér bakvið sturtuhengi. Góð hugmynd.
Í september, október, nóvember og desember var lært, lært, lært og aftur lært. Anatómía átti hug ungverja nánast allan. Hvað átti hug ungverja að litlu, en þó nokkru leyti verður ekki tiltekið fyrir framan alþjóð á öldum ljóshraðans. 24. desember kom ungverji heim, þreyttur og lúinn eftir að hafa náð lokaprófi í anatómíu tveimur dögum fyrr. Gott mál það. Ungverji upplifði skrýtnustu jól frá upphafi, enda kom jólaskapið ekki fyrr en á annan í jólum, þegar ungverji heyrði jólalög spiluð fyrsta sinni á árinu [athugið að ungversk og erlend jólalög teljast ekki með] á leið í teiti til Helgu, hvar þeyttur rjómi vina ungverja var staddur. Þó verður að geta þess að einungis hafði verið þeytt úr fjórðungi pela, enda vantaði marga.
Áramótin eru nú alveg sérpakki útaf fyrir sig. Haldið var á Hressó hvar Guja, Bryndís og Brynhildur héldu teiti ársins (bæði hins liðna og hins komandi). Það var feiknastemming hvar Helga og Ungverji, ásamt öllum hinum voru vel við skál. Það var skálað, dansað, skálað og dansað, talað, tekið í höndina á frægum mönnum, skálað enn meira og svo farið á nonna. Nonni bregst ekki. Það var semsagt mjög gaman, alveg þar til leigubílavesenið byrjaði. Og eftir að hafa misst 3 tær og nokkra fingur hringdi Kristín á móður sína sem kom galvösk og sótti djammliðið í Lækjargötuna. Ungverji fékk að krassa hjá Helgu í Álftamýrinni og er þeim, Helgu og móður Kristínar, þakkað kærlega fyrir vinsemd og greiðvikni í garð ungverja þetta kvöld.
Árið í heild sinni var gott. Vel heppnað og leið fljótt. Vonandi verður þó 2004 betra en árið sem var að líða. Ný íbúð bíður ungverja, ný fög í skólanum og vonandi bíða gömlu vinirnir líka eftir ungverja eins og þeir hafa vissulega gert hingaðtil.
Ungverji þakkar liðin ár og vonar að bloggað verði meira á komandi ári.
Með ást, elsku og virðingu,
Eggert Eyjólfsson, Ungverji með minnu, Íslendingur með meiru.
góðar stundir.
ps.
málefni frétta í dag verða tekin fyrir á morgun. Viðkvæmar sálir, passið ykkur!
<< Home