8.9.02

Skólasetning

Jæja. þá er komið að því. Í dag var skólinn settur. Klukkan 11:00 fyrir hádegi á sunnudagsmorgni. Ég lá í rúminu og barðist við svefnálfana um yfirráð yfir sjálfum mér. Ég hafði yfirhöndina. Það var því kl. 10:45 að ég var búinn í sturtu, kominn í jakkafötin og farinn út í 30 stigin. Labbaði náttúrulega að vitlausu húsi, sem er hinum megin á Campusnum miðað við aðalbygginguna hvar athöfnin fór fram. Til útskýringa eru tvær aðalbyggingar: Ein fyrir allan háskólann og ein bara fyrir enska læknaprógrammið. Ég fór að sjálfsögðu að læknabyggingunni, en hún var harðlæst. Það fyrsta sem ég sá þegar ég svo kom inn í hátíðarsalinn var stelpa sem ældi. Ég get mér þess til að hún hafi spúið af leiðindum, enda norskumælandi, en athöfnin fór fram á Ungversku. En það mál skilja ekki nema rétt um 10 milljónir af heildartölu íbúa jarðarinnar, ca. 6 milljörðum. Gaman að því. Þess má geta, að stúlkan atarna (?) var flutt út undir "ferskt loft", en eins og áður sagði voru 30 stig og núll vindur. Það er því lítið um ferskt loft.

|