30.8.02

hvað er um að ske???

Kallinn ákvað, í samráði við Atlann (aka Kallinn) að fara á kaffihús í miðbænum. Til samneytis voru valdar konur af kostgæfni, þó ein hafi ekki mætt. Mætt voru Atli, Stefán, Karen og Kristín ásamt undirrituðum. Ákveðið hafði verið að hittast á nýlegum, en þó ekki nýlegum, Sólon. Staðurinn lítur vel út að utan, og ekkert verr að innan. Hins vegar er hávaðinn þarna inni eins og á laugardagskvöldi eftir miðnætti. Auk þess er bjórinn dýr, og... þarf að segja meira?
Þess vegna var stefnan tekin niður Bankastrætið og farið á Nelly´s. Nelly´s, eins og flestir vita, selur ódýran, oft á tíðum vondan, en í þetta skipti góðan bjór. Það er í raun allt sem þarf, en ekki skemmir fyrir afslappað andrúmsloftið á Nelly´s. Það var hins vegar fólkið á næsta borði sem vakti athygli mína. Það varð nefnilega ekki hjá því komist, að heyra Stefán Pálsson tala við kunningja sína, sem ég reyndar hef hitt í teitum hjá Orminum. Þar voru í gangi heitar umræður um alþjóðavæðingu, andstöðu viðstaddra við hana (að ég held, ég er ekki mikið fyrir að hlera samræður annarra).
Annars var sögð ferðasaga Atla við okkar borð. Hann er nefnilega nýkominn af Interrail, þar sem margt merkilegt, og miður merkilegt gerðist. Þeir félagar Atli og Tumi, sem fór með Atla, eru alkunnugir hægðum hvors annars eftir mánaðarferðalag. Þetta var nú ekki í fyrsta sinn sem undirritaður heyrði söguna, heldur þriðja skiptið. Það er hins vegar alls ekki af hinu slæma, enda góð vísa sjaldnast of oft kveðin.
Annars var rætt um allt milli himins og jarðar, þó var umræðan heldur á jarðbundnu nótunum. Hugum var beint að komandi teiti er undirritaður heldur um komandi helgi. Það verður stemning, enda er langt þar til Kallinn kemur aftur á djammið á StórHafnarfjarðarsvæðinu.

|